21.12.2015
Jólaheiðrun deildarinnarJólaheiðrun deildarinnar fór fram miðvikudagskvöldið 7. desember síðastliðinn. Stigahæstu hundar bæði í vinnu og á sýningum voru heiðraðir ásamt stigahæsta ræktanda deildarinnar. Fóru eigendur hundanna hlaðnir verðlaunum heim með bros á vör eftir stórt og gott ár. Frábærir styrktaraðilar stóðu við bakið á okkur, Pro Pac aðal styrktaraðili deildarinnar gaf glæsilega verðlaunagripi að vanda, Belcando á Íslandi gáfu fóðurpoka og Petco gáfu Pet Head hunda shampoo, Julius K9 tauma og Halti tauma, svo gáfu Petmark vegleg nagbein ásamt Kong leikfangi og ljósi til að festa á hálsól. Þökkum við þeim öllum kærlega vel fyrir. Myndir frá kvöldinu má finna hér.
Glæsileg verðlaun voru á kvöldinu
15.12.2015
Jólaganga Schäferdeildarinnar
Fimmtudaginn næsta, 17. des., verður jólaganga Schäferdeildarinnar. Þá ætlum við að rölta saman um miðbæ Reykjavíkur, skoða mannlífið og upplifa jólastemninguna. Við ætlum að hittast á bílastæðinu við Hallgrímskirkju kl. 20 og ganga saman niður Skólavörðustíginn og að Ingólfstorgi. Allir velkomnir.
04.12.2015
Jólakaffi deildarinnar
28.11.2015
Alþjóðlegsýning HRFÍ 13.-15. nóvemberÞá er síðustu sýningu ársins lokið. Sýningin fór fram í reiðhöllinni í Víðidal, á föstudagskvöldinu fór fram keppni í hvolpaflokkumog schäferinn dæmdi dómarinn Annette Bystrup frá Danmörku. Byrjaði hún á snögghærðu hundunum og varð besti hvolpur tegundar 3-6 mánaða Gjósku Una Buna, besti hvolpur tegundar af gagnstæðu kyni varð Gunnarsholts Zello. Gjósku Una Buna endaði svo seinna um kvöldið í sterkri keppni sem 3. besti hvolpur sýningar. í síðhærðu hundunum varð Gjósku Usli besti hvolpur tegundar.
Á laugardaginn var svo Alþjóðlegasýningin og mættu 34 schäferhundar til leiks, 27 snögghærðir og 7 síðhærðir. Dómarinn var Annika Ultveit-Moe frá Svíþjóð og kom það í hennar hlut að velja bestu hunda tegundar. Byrjaði dómur á snögghærðu hundunum og valdi hún besta rakka tegundar ISShCh NLW-15 Kolgrímu For Your Eyes OnlyHólm. Þar sem að ISShCh NLW-15 Kolgrímu For Your Eyes OnlyHólm kemur úr meistaraflokki gekk Íslenska meistarastigið niður til Kolgrímu Genious Of All TimeHólm, var þetta 3. Íslenska meistarastigið hans og þar sem að hann hefur lokið vinnuprófum er hann orðinn Íslenskur meistari ISCh. Óskum við eiganda hans Hildi Pálsdóttur innilega til haminingju með það. Bestu tík tegundar valdi Annika ISShCh Gunnarsholts Whoopy, aftur kemur hún úr meistaraflokki og ramnn því stigið niður til næstu tíkar eða Ice Tindra Gordjöss og það hennar 2. meistarastig. ISShCh NLW-15 Kolgrímu For Your Eyes OnlyHólm endaði sem besti hundur tegundar og sigraði svo tegundarhóp 1. Besti hundur af gagnstæðu kyni varð því ISShCh Gunnarsholts Whoopy. Besta afkvæmahóp tegundar átti Eldeyjar Hugi og endaði hann sem 2. besti afkvæmahópur dagsins. Besta ræktunar hóp átti Kolgrímuræktun. Þá tóku við síðhærðu hundarnir og stóð uppi sem besti rakki tegundar ISShCh Gjósku Rosi-Loki. Besta tík tegundar varð ISShCh Kolgrímu Gypsy WomanHólm, Íslenska meistarastigið rann niður til Gjósku Ruslönu-Myrru og er þetta hennar 3. meistarastig og er hún því orðinn Íslenskur sýningarmeistari. Óskum við eiganda hennar Unni Rut Rósinkransdóttir innilega til hamingju. ISShCh Kolgrímu Gypsy WomanHólm endaði svo sem besti hundur tegundar og ISShCh Gjósku Rosi-Loki besti hundur tegundar af gagnstæðu kyni. Besta ræktunarhóp tegundar átti Gjóskuræktun. Pro Pac gaf alla verðlaunagripi á sýningunni og hafa þeir staðið þétt við bakið á okkur á árinu, mikill fjöldi sýninga hefur verið á árinu og erum við þeim virkilega þakklát. 19.11.2015
Eldeyjar Hugi þjónustuhundur ársins 2015Eldeyjar Hugi var á dögunum valinn þjónustuhundur ársins af stjórn HRFÍ. Tilnefna má hunda sem vinna fyrir samfélagið allt árið um kring, svo sem lögreglu-, tollgæslu-, fíkniefna- og björgunarhunda og var Hugi valinn úr fjölda umsækjenda.
Hugi er 8 ára gamall og starfar með Björgunarsveitinni Ársæli. Hugi er fullþjálfaður leitarhundur bæði í snjóflóða- og víðavangsleit. Hann hefur verið í þjálfun hjá Leitarhundum frá þriggja mánaða aldri og starfar með Björgunarsveitinni Ársæli í Reykjavík. Hugi er ræktaður af Kristínu Jóhannsdóttur og er undan Gjósku Dömu og Fedor von Santamar. Hann fer reglulega í útköll og hefur tekið þátt í fjölmörgum leitarútköllum frá því hann komst á útkallslista fyrir 6 árum síðan. Eigendur hans eru Theodór Bjarnason og Íris Hlín Bjarnadóttir. Árið 2008 þá aðeins 6 mánaða gamall lauk Hugi fyrsta leitarprófi sínu en það var C próf í snjóflóðaleit. Síðar sama ár lauk hann C prófi í víðavangsleit, þá tæplega eins árs. Fljótlega komst hann svo á útkallslista hjá björgunarsveitunum eftir B próf í snjóflóðaleit einungis 18 mánaða. Sama ár þegar hann lauk B prófi, þá tæplega tveggja ára komst hann á útkallslista í víðavangsleit. Árið 2010 lauk hann svo A prófi í snjóflóða- og víðavangsleit og var þá orðinn fullþjálfaður leitarhundur og hefur síðan þá viðhaldið A prófi með endurmati og verið á útkallslista alla tíð bæði í snjóflóðaleit og víðavangsleit. Hugi þykir afburða góður leitarhundur. Hann hefur einnig þónokkra sérstöðu fram yfir aðra schäferhunda þar sem hann er mjög sjálfstæður í vinnu, sérstaklega í víðavangsleit og getur farið mjög langt frá stjórnanda sínum á meðan hann leitar svæðið, margfalt lengra en eðlilegt þykir fyrir þessa hundategund. Schäfer er þekktur fyrir að vera mjög húsbóndahollur og því telst sjálfstæði Huga í víðavangsleit sérstakt fyrir hunda af hans tegund. Síðustu ár hefur Hugi verið eini schäferhundurinn á Íslandi sem er á útkallslista björgunarsveitanna. Hann er mjög öruggur í leit og lætur ekkert trufla sig, svo sem fólk eða hunda, önnur dýr, farartæki og svo framvegis. Hann hefur ávallt lokið öllum leitarprófum eins ungur og mögulegt er og án athugasemda. Hugi hefur einnig sinnt fjölmörgum öðrum sjálfboðaliðastörfum með björgunarsveitinni. Hann hefur t.a.m. farið nokkur sumur í hálendisgæslu björgunarsveitanna og tekið þátt í sölu Neyðarkallsins. Óskum við eigendum hans innilega til hamingju með þessa viðurkenningu og er Hugi svo sannarlega að heiðrinum kominn. 26.10.2015
Fyrsta Gullmerki og OB-II Hlýðni titill á Íslandi.
Schäfer tíkin OB-II OB-I Vonziu´s Asynja hefur fengið fyrsta gullmerki í Hlýðni-II og fyrsti OB-II titil á Íslandi hjá Hrfí. Til að hljóta þennan titil þarf að ná fyrstu einnkun sem er 160 stig 3 sinnum af 200 stigum, og hjá 2 mismunandi dómurum, og til að fá Gullmerkið þarf að ná viðurkenndri einnkun sem er 5 stig í öllum æfingum, eru æfingarnar 10 talsins.
Hún hefur fengið staðfestingu á OB-II titlinum mun því fá þessa titla skráða í ættbókina sína OB-II OB-I Vonziu´s Asynja Þetta er alveg ótrúlegur árangur hjá svona ungri tík en hún verður ekki 2. ára fyrr en núna í des 2015. Óskum við Hildi Pálsdóttir eigandi OB-II OB-I Vonziu´s Asynja sem hefur verið svona dugleg að þjálfa tíkina sína ynnilega til hamingju með þennan frábæra árangur og hlökkum til að fylgjast með þeim í framtíðinni. Til gamans þá eru þær líka að æfa með Björgunarhundasveit Íslands. 26.10.2015
Opið fyrir skráningu á æfingakvöld í nóvember 2015
Opnum aftur fyrir skráningu á skemmtilegu æfinga kvöldin okkar upp í Andvara reiðhöllinni á Kjóavöllum (Sprettur í Garðabæ). Komust færri að en vildu síðast.
Þau verða alla fimmtudaga í nóvember (5. 12. 19. og 26.) frá kl 20.00 til 21.00 Greitt verður fyrir 1 mánuð í senn og greiða þarf fyrir fram, mánuðurinn er á 4.000 kr. Hámarks fjöldi verður 12 manns og fyrstur kemur fyrstur fær. Til að skráning verði tekin gild verður greiðsla að fylgja. Leggja skal inn á reikning Schäferdeildarinnar 586 - 26 - 691010 og kt. 691010-0230 og senda kvittun á [email protected]. Allir eru velkomnir. 23.10.2015
Fyrirlestur dómarans eftir deildarsýninguna
Louis Donald frá Ástralíu dæmdi á deildarsýningu Schäferdeildarinnar sem fram fór laugardaginn 3. október. Louis er vel þekktur erlendis, hann hefur mikla sérþekkingu á tegundinni, áratuga reynslu sem dómari og hefur skrifað margar greinar sem bæði eru birtar á heimasíðu hans og í tímaritum og dagblöðum erlendis. Louis er meðal annars með dómararéttindi frá SV sem er Alþjóðlega schäfersambandið.
Eftir sýninguna hélt hann fyrirlestur fyrir gesti þar sem hann tók lauslega saman upplifun sína af þeim hundum sem höfðu komið í dóm hjá honum yfir daginn. Alls var 61 hundur skráður, jafn margir og á deildarsýningunni 2013, og var þetta því ágætis þverskurður af íslenska stofninum. Louis útskýrði sérstaklega samspil byggingu og hreyfinga hjá hundunum, hvernig æskileg bygging og hreyfingar ættu að vera og hvað það er sem við íslendingar þurfum að hafa í huga út frá okkar stofni. Croup Skv. Louis voru nokkur atriði sem einkenna íslenska schäferstofninn en það var meðal annars of stuttur spjaldhryggur (croup). Tegundin ætti að hafa langan spjaldhrygg og hann má ekki vera of brattur. Ástæðan fyrir því er að hundarnir þurfa að vera styrkir í skrefi að aftan, lyfta upp með krafti, taka gott skref áfram og það þarf að myndast góð lengd á milli þess fótar sem fer fram og þess sem er aftar. Ef spjaldhryggurinn er langur eru hreyfingar hundsins að aftan góðar. Hundarnir á Íslandi lyfta vel en skrefið fram er ekki gott. Lærið þarf einnig að vera breitt, því breiðara læri sem hundur hefur því meiri vöðvamassi og því sterkari fætur. Mjaðmagrindin þarf einnig að vera nægilega löng, ef hundur hefur breitt læri má leiða líkur að því að mjaðmagrindin sé löng og þá er byggingin rétt. Halli á spjaldhryggnum skal vera helmingur af 45° eða í kringum 23° eins og myndin sýnir. Upper arm Upper arm (upphandleggur) eða efri hluti framfótleggs er kallaður bógarmur eða armleggur. Armleggurinn þarf að vera 10% lengri en herðablaðið. Hundarnir á Íslandi hafa sumir hverjir helmingi styttri armlegg heldur en lengd herðablaðsins (shoulder blade). Louis sagði þetta vandamál sérstaklega algengt hjá okkur og voru langflestir hundarnir með of stuttan armlegg. Of stuttur armleggur veldur því að skref hundins að framan verður of stutt. Um 90% hunda hér hafa of stuttar hreyfingar, bæði vegna þess að þeir hafa of stuttan spjaldhrygg og of stuttan armlegg og má líkja því við að hundarnir séu að skokka eða tipla. Tegundin á að hafa langan velvinklaðan armlegg og langan velvinklaðan spjaldhrygg en langstærstur hluti hunda hér skortir það. Hann hafði einnig athugasemdir varðandi geðslag sumra hunda, margir þyrftu að vera sjálfsöruggari og félagslega opnari. Louis hafði sterka skoðun á okkur sem sýnendur. Honum fannst keðjurnar flestar of strektar á hundunum og fannst honum furðulegt hversu margir væru að gefa hundunum nammi. Louis var kröfuharður og gagnrýninn en gaf góð ráð varðandi það hvernig bæta megi gæði stofnsins. Í heildina litið fannst honum stór hluti stofnsins ekki nægilega góður og var einkunnagjöf hans í takt við það. Þeir sem bera hag tegundarinnar og ábyrga ræktun fyrir brjósti ættu að íhuga þessi atriði vel enda komu sömu áherslupunktar fram hjá Karl Otto Ojala sem dæmdi á deildarsýningunni þar á undan sem haldin var 2013. Mikil þörf er á endurnýjun undaneldisdýra hér á landi og ættu ræktendur að hafa þessi atriði sérstaklega í huga við val á rökkum og tíkum til innflutnings. Louis gaf öllum hundum nokkuð ítarlegan dóm en umsagnir um hvern og einn má lesa hér. Hér má lesa viðtal við dómarann Karl Otto Ojala sem dæmdi stofninn fyrir tveimur árum síðan en Brynja Tomer ræddi við hann eftir sýninguna. 17.10.2015
Deildasýning Schäferdeildarinnar 3. októberGlæsileg deildarsýning deildarinnar fór fram 3. október síðastliðinn í reiðhöllinni í Keflavík. Aðstæður voru góðar bæði fyrir sýnendur og áhorfendur. 61 hundur var skráður til leiks og fenginn var schäfer sérfræðingurinn Louis Donald frá Ástralíu. Eftir sýninguna hélt hann áhugaverðan fyrirlestur um byggingu hunda og sagði fólki hvað það þyrfti að varast í ræktun.
Eins og á síðustu deildarsýningu 2013 talaði Louis um frampart hundana og þá aðallega efri legginn, passa þarf sérstaklega upp á lengdina á honum í hundunum hér á landi. SV- dómarar dæma eftir ströngustu skilyrðum í heimi og er frábært fyrir ræktendur að fá hreinskilna og gangrýna dóma á hundana sína. Tók Louis verulega hart á þessum göllum og reyndi eftir bestu getu að útskýra fyrir ræktendum hvað þeir þyrftu að laga, sem er akkurat tilgangur deildarsýninga. Besta hvolp tegundar og jafnframt Besta hvolp sýningar valdi Louis síðhærðru tíkina Kolgrímu Jolie. Hóf hann svo dóm á snögghærðu hundunum og valdi hann besta rakka tegundar úr meistaraflokki ISShCh RW-15 Juwika Fitness. Íslenska meistarastigið rann niður til 2. besta rakka, Gjósku Mána. ISShCh RW-15 Juwika Fitness endaði sem besti hundur tegundar og endði daginn svo á því að verða besti hundur sýningar. Besta hund tegundar af gagnstæðu kyni valdi hann meistara tíkina ISCh ISTrCh OB-1 Kolgrímu Blaze Hólm. Engin önnur snögghærð tík hlaut excellent (1. einkunn) á sýningunni. Besti öldungur tegundar og jafnframt besti öldungur sýningar var Eldeyjar Hugi og átti hann einnig besta afkvæmahóp sýningar. Besta ræktunarhóp tegundar átti Kolgrímu ræktun og endaði hann svo sem 2. besti ræktunarhópur sýningar. Tók þá við hópur síðhærðu hundana og valdi hann úr meistaraflokki ISShCh RW-14-15 Kolgrímu Gypsy WomanHólm sem besta hund tegundar, Íslenska meistarastigið hjá tíkunum rann niður til Gjósku Ruslönu-Myrru. ISShCh RW-14-15 Kolgrímu Gypsy WomanHólm varð svo annar besti hundur sýningar. Besti hundur tegundar af gagnstæðu kyni var ISShCh Gjósku Rosi-Loki, þar sem að hann er einnig meistari rann Íslenska meistarastigið niður til Gjósku Óla Hólm. Besta ræktunarhóp tegundar átti Gjósku ræktun og endaði hópurinn sem besti ræktunarhópur sýningar. Um kvöldið hittust deildarmeðlimir og fögnuðu á Gamla Vínhúsinu í Hafnarfirði. Borðaður var góður matur og rætt var við dómarann um hitt og þetta. Frábær stemning var í hópnum og gleðin hélt áfram fram eftir kvöldi. Pro pac styrkti deildina að vanda með glæsilegum verðlaunagripum og þökkum við þeim vel fyrir. Allar umsagnir hunda eru birtar hér á síðunni og eru þær undir hnappnum Sýningar. Umsagnir frá deildarsíðunni má finna hér. 15.10.2015
Schäfer valinn Besti hundur sýningar hjá HRFÍ
Snögghærður schäfer var valinn Besti hundur sýningar á síðustu sýningu hjá HRFÍ sem fram fór helgina 19. - 20. sept. og var það hinn fjögurra ára gamli NLW-15 ISShCh Kolgrímu For Your Eyes OnlyHólm sem sigraði. Alls voru skráðir 546 hundar af 76 hundategundum og stóð Ian, eins og hann er vanalega kallaður, uppi sem sigurvegari sýningarinnar. Við óskum Auði Sif Sigurgeirsdóttur og Sirrý Höllu Stefánsdóttur innilega til hamingju með þennan glæsilega rakka.
Af þessu tilefni var tekið viðtal við þær Sirrý Höllu og Auði Sif í þættinum Besti vinur mannsins á Stöð 2 og var sá þáttur sýndur sl. mánudagskvöld. 13.10.2015
Styrktaraðilar deildarsýningar Schäferdeildarinnar
Fjölmargir styrktaraðilar gerðu okkur kleift að halda glæsilega deildarsýningu þann 3. okt. síðastliðinn en það voru Pro Pak, Best Western Hotel Reykjavík, Byko, Arion gæludýrafóður, J&A lögmannsstofa, Josera og Dýralæknastofa Suðurnesja.
Einnig komu fjölmargir til aðstoðar þennan dag, bæði starfsfólk á sýningunni og sjálfboðaliðar vegna aksturs dómara og sendum við þeim okkar bestu þakkir. 05.10.2015
Alþjóðleg sýning HRFÍ 19.-20. septemberAlþjóðleg sýning HRFÍ fór fram helgina 19. og 20. september síðastliðinn. Á föstudagskvöldinu 18. september fór fram keppni í hvolpaflokkum.
Hvolpaflokkinn dæmdi Sóley Halla Möller og valdi hún Gjósku Tófu Tignarlegu sem besta hvolp tegundar og endaði hún svo sem Besti hvolpur sýningar 6-9 mánaða. Besti hvolpur tegundar af gagnstæðu kyni var Gjósku Tindur. Schäferinn var sýndur á sunnudeginum og var fenginn til að dæma frá Írlandi Michael Leonard. Byrjaði hann á síðhærðu hundunum. Valdi hann úr meistaraflokki flokki ISShCh RW-15 NLW-15 Gjósku Rökkvi-Þór sem besta hund tegundar og hlaut hann Alþjóðlegt meistarastig. Endaði hann svo í 4. sæti í tegundarhópi 1. Er þetta í 2. sinn sem síðhærður schäfer hlýtur sæti þar. Þar sem að ISShCh RW-15 NLW-15 Gjósku Rökkvi-Þór er orðin meistari þá gekk íslenska meistarastigið niður til Gjósku Rosa-Loka og var það hans þriðja og síðasta meistarastig, er hann því orðinn Íslenskur sýningarmeistari og óskum við eiganda hans og ræktanda Örnu Rúnarsdóttur til hamingju. Besta hund tegundar af gagnstæðu kyni valdi hann úr ungliðaflokki Ice Tindra Joss, hlaut hún sitt þriðja íslenska meistarastig en þar sem að hún hefur ekki náð tilsettum tveggja ára aldri hlýtur hún ekki nafnbót. Besta ræktunarhóp tegundar átti Gjósku ræktun. Í snögghærðu hundunum valdi hann besta hund tegundar NLW-15 ISShCh Kolgrímu For Your Eyes OnlyHólm og hlaut hann Alþjóðlegt meistarastig. Þar sem að NLW-15 ISShCh Kolgrímu For Your Eyes OnlyHólm er orðinn meistari þá færðist stigið niður til RW-15 Juwika Fitness og var það hans 3. íslenska meistarastig bíður hann því staðfestingar á meistaranafnbótinni Íslenskur sýningarmeistari. Besta hund af gagnstæðu kyni valdi hann tíkina ISShCh Gunnarsholts Whoopy. Aftur gekk Íslenska meistarastigið niður og að þessu sinni til Kolgrímu Invisible. NLW-15 ISShCh Kolgrímu For Your Eyes OnlyHólm gerði sér lítið fyrir og sigraði stóran tegundarhóp 1 og fór svo alla leið og endaði sem Besti hundur sýningar. Óskum við eigenda hans og ræktanda Sirrý Höllu Stefánsdóttur frábærlega til hamingju með þennan árangur. Besti öldungur tegundar varð hinn 8 ára gamli Eldeyjar Hugi. C.I.B ISCh RW-14-13 Welincha's Yasko með afkvæmum sínum varð besti afkvæmahópur tegundar og endaði jafnframt sem besti afkvæmahópur dagsins. Gjósku ræktun átti besta ræktunarhóp tegundar sem endaði svo sem Besti ræktunarhópur dagsins. Pro Pac styrkti deildina með glæsilegum verðlaunagripum í öllum flokkum. 02.10.2015
Deildarsýning 3. okt.Húsið opnar kl 9:30. Sýningarnúmer afhent við inngang inn á völlinn. Komið vel klædd því húsið er ekki upphitað. Sjoppa verður á staðnum með ýmsu góðgæti.
Dómarinn Louis Donald ætlar svo eftir sýninguna að halda spennandi fyrirlestur í reiðhöll Mána og eru velkomnir á. Það verður frítt inn á sýninguna og fyrirlesturinn. Hlökkum til að eiga með ykkur skemmtilegan dag. Munið að keyra varlega í gegnum hesthúsahverfið. 02.10.2015
Athugið breytt dagskráHvolpar:
Snöggir 6-9 mán (1) : 10.00 Síðhærðir 6-9 mán (2) : 10.04 Schafer snögghærður (44) : 10.19 Schafer síðhærður (14) : 13.30 Áætluð úrslit : 14.45 ATH. Síðhærðu hundarnir byrja beint á eftir þeim snöggu þannig að það er gott að vera tímanlega ef að við verðum á undan áætlun. 1.10.2015
Sjoppa á deildarsýningunni 3. okt 2015Deildarsýning 3.okt 2015
Það verður sjoppa á sýningunni, hægt verður að fá veitingar, gos og eitthvað góðgæti. Posi verður á staðnum 01.10.2015
Það er orðið fullt á hlýðnikvöldin okkar
Þökkum enn og aftur fyrir frábærar viðtökur á hlýðnikvöldin, en það er orðið fullt hjá okkur í október mánuði.
Hlökkum til að sjá alla hressa í kvöld! 29.09.2015
Dagskrá deildarsýningarinnarHérna er áætluð dagskrá fyrir deildarsýninguna næstu helgi.
Hvolpar: Snöggir 6-9 mán (1) : 10.00 Síðhærðir 6-9 mán (2) : 10.05 Schafer snögghærður (44) : 10.25 Hlé 14.15 Schafer síðhærður (14) : 14.45 Áætluð úrslit : 16.00 Við mælum með því að fólk mæti tímalega þar sem dagskráin getur breyst. 29.09.2015
Deildarsýning á laugardaginn og sameiginlegur kvöldverður
Deildarsýningin verður haldin í reiðhöll Mána í Keflavík og hefst hún á hvolpaflokkum, bæði kl. 10. Snögghærðir verða sýndir fyrst og svo síðhærðir. Í lok sýningar fara fram úrslit um bestu hunda og hópa sýningar en þar keppa snögghærðir og síðhærðir saman.
Hér má sjá kort af leiðinni. Neðst til vinstri er Keflavíkurflugvöllur. Þegar komið er að hringtorginu við Keflavíkurflugvöll er beygt til hægri eins og verið sé að aka í átt að Garði. Við næsta hringtorg er farið út þriðju götu í hringtorginu eins og ekið sé í Sandgerði. Beygið til hægri fyrsta afleggjara inn í hesthúsahverfi Keflavíkur. Þar er ekið í gegnum hverfið, niður til hægri, beygt til vinstri og fljótlega aftur til vinstri og þar má sjá stóra reiðhöll.
Sýninganúmer verða afhent við innganginn á laugardagsmorgun. Um kvöldið munum við fagna deginum saman. Við munum hittast á veitingastaðnum Gamla Vínhúsinu í Hafnarfirði. Í boði er þriggja rétta hópmatseðill á 4.580 kr á mann. Við verðum með efri hæðina fyrir okkur, tilboð á barnum og er opið hjá þeim til kl. 3. 25.09.2015
Opið fyrir skráningu á æfingakvöldin í októberNúna opnum við aftur fyrir skráningu á skemmtilegu æfinga kvöldin okkar upp í Andvara reiðhöllinni á Kjóavöllum (Sprettur í Garðabæ). Komust færri að en vildu síðast.
Þau verða alla fimmtudaga í október (1. 8. 15. 22 og 29.) frá kl 20.00 til 21.00 Greitt verður fyrir 1 mánuð í senn og greiða þarf fyrir fram, mánuðurinn er á 4.000 kr. Hámarks fjöldi verður 12 manns og fyrstur kemur fyrstur fær. Til að skráning verði tekin gild verður greiðsla að fylgja. Leggja skal inn á reikning Schäferdeildarinnar 586 - 26 - 691010 og kt. 691010-0230 og senda kvittun á [email protected]. Allir eru velkomnir. 21.09.2015
Framlengdur skráningarfrestur til 23. sept á deilarsýningunaSkráningin er góð á deildarsýninguna, nú hafa 60 hundar verið skráðir.
Skráningarfresti hefur þó verið framlengt fram á miðvikudag 23. sept ef fleiri vilja vera með. Hafið samband við skrifstofu HRFÍ í síma 588-5255 milli kl. 10-15. Lokað í dag á skrifstofunni vegna sýningarinnar um helgina en opnar á morgun. Minnum á sýningaþjálfun deildarinnar sem fer fram á mánudagskvöldum fram að deildarsýningu. Í kvöld verður hún í bílastæðahúsinu við Lyngháls 3 kl. 20:00 og í reiðhöll Mána í Keflavík næsta mánudag kl. 20:00 þar sem sýningin verður haldin. Bestu kveðjur Stjórn Schäferdeildarinnar 07.09.2015
Deildarsýning Schäferdeildarinnar
02.09.2015
Minnum á !
Schäferdeildar sýning.
Ertu nokkuð að gleyma þér ! Síðasti skráningardagur á Schäferdeildar sýninguna á gjaldi 1 er næsta föstudag sem er 4. sept Skráning fer í gegnum HRFÍ. Stelpurnar á skrifstofu HRFÍ taka vel á móti ykkur og hjálpa ykkur við skráningu í síma 588-5255 28.08.2015
Sýningarþjálfun hjá Schäferdeild fyrir næstu sýningu
Schäferdeildin verður með sýningarþjálfun fyrir næstu sýningu hjá HFRÍ og deildarsýninguna hjá Schäferdeildin í bílastæðahúsinu á móti Líflandi á Lynghálsi 3 á sunnudögum kl 14.
30. ágúst leiðbeinandi Rúna Helgadóttir 6. sept leiðbeinandi Kristjana Bergsteinsdóttir 13. sept Leiðbeinandi Rúna Helgadóttir Skiptið kostar 500 kr. og rennur óskipt til deildarinnar. Munið eftir góða skapinu, taum, ól, nammi, dót og pokum. Hlökkum til að sjá ykkur 27.08.2015
Orðið fullt á hlýðnikvöldin
Það er orðið fullt á Hlýðnikvöldin hjá schäferdeildinni. Þökkum við fyrir frábæra þátttöku og hlökkum til að hitta ykkur fimmtudaginn 3. sept kl 20 í Andvarahöllinni á Hattarvöllum 2.
24.08.2015
Ganga Schäferdeildarinnar 26. ágústDeildin ætlar að halda skemmtilega göngu miðvikudagskvöldið 26. ágúst kl 19:30. Hist verður við Félagsheimili Fáks í Víðidal og gengið léttan hring í kringum elliðaárnar. Göngur deildarinnar eru oftast mjög vel sóttar og eru frábær umhverfisþjálfun fyrir hundana okkar, ásamt því að vera frábær leið til þess að kynnast öðru fólki í deildinni. Hlökkum við til að sjá ykkur sem flest hress og kát!
21.08.2015
Hlýðni kvöld Schäferdeildarinnar.Núna fer að líða að því að skemmtilegu Hlýðni kvöldin okkar fara að byrja aftur upp í Andvara reiðhöllinni á Kjóavöllum (Sprettur í Garðabæ). Þau verða alla fimmtudaga í september (3. 10. 17. og 24.) frá kl 20.00 til 21.00 og byrjum við fimmtudaginn 3. Sept.
Greitt verður fyrir 1 mánuð í senn og greiða þarf fyrir fram, mánuðurinn er á 4.000 kr. Hámarks fjöldi verður 12 manns og fyrstur kemur fyrstur fær. Til að skráning verði tekin gild verður greiðsla að fylgja. Leggja skal inn á reikning Schäferdeildarinnar 586 - 26 - 691010 og kt. 691010-0230 og senda kvittun á [email protected]. Allir eru velkomnir. 10.08.2015
Deildarsýning Schäferdeildarinnar
Deildarsýning Schäferdeildarinnar verður haldin laugardaginn 3. október n.k. Dómari verður Louis Donald frá Ástralíu. Hann er sérhæfður schäferdómari með áratuga reynslu bæði sem dómari og ræktandi. Louis Donald er með ýmis dómararéttindi, meðal annars frá SV, og hefur ræktað undir ræktunarnafninu Bratara í Ástralíu.
Líkt og á síðustu tveimur deildarsýningum verður Louis Donald með munnlegan dóm, þ.e. hann tilkynnir áhorfendum jafnóðum um dóm sinn á hverjum hundi. Auk hefðbundinna titla einstakra hunda og hópa verður einnig boðið upp á parakeppni, valinn verður besti ungliði tegundar og sýningar ásamt því að bestu hundar tegundar af hvorri tegund keppa um titilinn besti hundur sýningar. Schäferdeildin hefur undanfarin ár lagt metnað sinn í að halda deildarsýningu annað hvert ár og bjóða schäfereigendum upp á að fá dómara sem er sérhæfður í tegundinni. Þetta er frábært og einstakt tækifæri til þess að fá schäferdómara til þess að dæma tegundina og hvetjum við alla til þess að taka þátt. Skráning fer fram í gegnum skrifstofu HRFÍ og verður síðasti skráningardagur auglýstur síðar. 04.08.2015
Sumarsýning HRFÍ 24.-26. júlí 2015Glæsileg tvöföld sýning HRFÍ fór fram helgina 25. og 26. júlí síðastliðinn. Á föstudagskvöldinu 24. júlí fór fram keppni í hvolpaflokkum og schäferinn dæmdi íslenski dómarinn Lilja Dóra Halldórsdóttir. Valdi hún 4 hvolpa af öllum tegundum til þess að mæta til úrslita á laugardeginum og var snögghærður schäfer einn af þessum 4.Á laugardaginn 25. var Reykjavík Winner sýning þar sem bestu hundar tegunda fengu titilinn RW-15 í ættbók. Sunnudaginn 26. var svo Alþjóðleg sýning, Schäferinn var lang fjölmennasta tegundin á allri sýningunni og þótti dómurunum mikið til hundana hér á landi koma.
Á laugardeginum var fenginn Antonio Di Lorenzo frá Noregi til að dæma og byrjaði hann á snögghærðu hundunum. Valdi hann úr öldunga flokki C.I.B ISCh Easy von Santamar sem besta hund tegundar, hlaut hún því titilinn RW-15. Var hún einnig valinn besti öldungur tegundar og stóð svo uppi sem 2. Besti öldungur sýningar. Þar sem að RW-15 C.I.B ISCh Easy von Santamar er orðin meistari þá gekk Íslenska meistarastigið niður til Eldeyjar Ölmu og var það hennar fyrsta stig. Besta hund tegundar af gagnstæðu kyni valdi hann úr opnum flokki Juwika Fitness, hlaut hann einnig titilinn RW-15 og sitt fyrsta Íslenska meistarastig. Besta ræktunarhóp tegundar átti Kolgrímu ræktun og enduðu þau sem besti ræktunarhópur sýningar. Á föstudags kvöldinu fór fram hvolpaflokkur og valdi Lilja Dóra Halldórsdóttir Gjósku Tófu Tignarlegu sem besta hvolp tegundar og valdi hana svo áfram í topp 4. Besta hvolp tegundar af gagnstæðu kyni valdi hún Kolgrímu Junior. Úrslit í hvolpaflokki 6-9 mánaða dæmdi Jan Törnblom frá Svíþjóð. Valdi hann Gjósku Tófu Tignarlegu sem Besta hvolp sýningar. Síðhærðu hundarnig fylgdu svo á eftir og valdi Antonio meistara tíkina ISShCh RW-14 Kolgrímu Gypsy WomanHólm sem besta hund tegundar og hlaut hún einnig RW-15 titil. Þar sem að hún er orðin meistari þá gekk stigið niður til hinnar ungu Ice Tindra Joss. Besti hundur af gagnstæðu kyni varð NLW-15 Gjósku Rökkvi-Þór og hlaut hann sitt 4. Íslenska meistarastig, en nú hefur hann náð tilsettum 2. ára aldri og hlýtur hann því bæði titilinn ISShCh eða Íslenskur sýningarmeistari ásamt RW-15 titlinum. Besta ræktunarhóp tegundar átti Gjósku ræktun. Lilja Dóra valdi besta hvolp tegundar tíkina Kolgrímu Jolie. Á sunnudeginum var til leiks mætt til að dæma Jadranka Mijatovic frá Króatíu. Í snögghærðu hundunum valdi hún besta hund tegundar Kolgrímu Forever FabolousHólm og fékk hún sitt fyrsta Íslenska og Alþjóðlega meistarastig. Besta hund tegundar af gagnstæðu kyni valdi hún gotbróður hennar hann NLW-15 ISShCh Kolgrímu For Your Eyes OnlyHólm og hlaut hann Alþjóðlegt meistarastig. Þar sem að NLW-15 ISShCh Kolgrímu For Your Eyes OnlyHólm er orðinn meistari þá færðist stigið niður til RW-15 Juwika Fitness og var það hans 2. Íslenska meistarastig. Aftur átti Kolgrímu ræktun besta ræktunarhóp tegundar og Besta ræktunarhóp sýningar. Síðhærðu hundana sigraði aftur RW-14-15 ISShCh Kolgrímu Gypsy WomanHólm og hlaut hún Alþjóðlegt meistarastig. Aftur gekk Íslenska meistarastigið niður til Ice Tindra Joss, hlítur hún því sitt 2. meistarastig. ISShCh RW-15 NLW-15 Gjósku Rökkvi-Þór varð aftur valinn besti hundur tegundar af gagnstæðu kyni og hlaut einnig Alþjóðlegt meistarastig. Þar sem að Rökkvi hafði orðið meistari deginum áður gekk stigið niður til bróður hans Gjósku Rosa-Loka og var það hans 2. stig. Besta ræktunarhóp tegundar átti aftur Gjósku ræktun. Pro Pac styrkti deildina með glæsilegum verðlaunagripum í öllum flokkum. 24.07.2015
Tvöföld útisýning um helginaStórglæsileg tvöföld útisýning Hundaræktarfélags Íslands fer fram um helgina á félagssvæði hestamannafélagsins Fáks í Víðidal.
Í kvöld fer fram hvolpasýning og munu 7 schaferhvolpar taka þátt að þessu sinni. 4 síðhærðir og 3 snögghærðir. Á morgun laugardag er Reykjavík Winner sýning og eru skráðir til leiks 43 schaferhundar, 33 snöggir og 10 síðhærðir. Dómari verður Antonio Di Lorenzo frá Noregi og verður tegundin í hring 7. Seinni daginn verður svo Alþjóðleg sýning og aftur er sami fjöldi skráður til leiks. Dómari á sunnudeginum er Jadranka Mijatovic frá Króatíu og dæmir hún í hring 1. Pro Pac hefur styrkt deildina með glæsilegum verðlaunagripum og þökkum við þeim kærlega vel fyrir það. Hlökkum við til að sjá sem flesta hress og kát á þessari glæsilegu sumarsýningu HRFÍ 21.07.2015
Frábær stemning á sumargleði SchäferdeildarinnarSumargleði deildarinnar fór fram síðast liðinn sunnudag í blíðskapar veðri. Fór góður hópur í göngu um Heiðmörkina, á meðan að annar hópur æfði sig fyrir næstu hunda sýningu. Eftir göngu og sýningarþjálfun var skellt pylsum og öðru góðgæti á grillið. Mikil gleði var í fólki og stefnt er á að gera þetta að árlegum viðburði.
Myndirnar tók Sigga Beck 20.07.2015
Síðasta sýningarþjálfunin fyrir sumarsýningu
Viljum minnum á sýningarþjálfun Schäferdeildarinnar þriðjudagskvöldið 21. júlí kl 20:00.
Er þetta síðasta sýningarþjálfun hjá Schäferdeildinni fyrir næstu sýningu. Keyrt inn á malarplanið beint á móti dýraspítalanum í Víðidal og æfingin verður á túninu þar við hliðina. Skiptið kostar 500 kr og rennur það beint til deildarinnar. Allir velkomnir og hlökkum til að sjá ykkur 16.07.2015
Sumargleði Schäferdeildarinnarí tilefni þessarar veðurblíðu sem leikið hefur um Íslendinga síðustu daga hefur schäferdeildin ákveðið að hafa smá sumargleði næsta sunnudag 19. júlí. Gamanið heftst kl 18:00 á sýningarþjálfun fyrir þá sem eru að undirbúa sig fyrir sýninguna og kostar hún 500 kr eins og vanalega. Annar hópur heldur svo í stutta göngu um heiðmörkina á meðan. Svo klukkan 19:00 verður kveikt upp í grillinu og fólki er velkomið að koma með kjöt eða annað gúmmelaði á grillið. Deildin mun bjóða uppá gos, salöt og sósur.
Allt verður þetta húllumhæ haldið uppi við elliðavatn. Keyrt er framhjá Olís í Norðlingaholti og áfram út suðurlandsveginn þangað til að það kemur skilti á hægri hönd sem segir Heiðmörk. Þar beygir maður og keyrir sem leið liggur áfram, komið er að brú og ekið yfir hana. Þá er þetta beint á vinstri hönd. Beygt er inná Heiðmerkurveg út af suðurlandsvegi og ekið sem leið liggur að vatninu.
30.06.2015
Vinnubúðir á Snæfellsnesinu.Dagana 25, 26 og 27 fór Schaferdeildin með Hundalíf á Snæfellsnesið í vinnubúðir. Við fengum alveg æðislegt veður allann tímann og komu flestir ef ekki allir vel sólbrenndir heim. Þórhildur og Brynhildur sáu um alla dagskránna og skipulagið og var það alveg til fyrirmyndar og skemmtu allir sér konunglega. Æft var í hlýðni, hundafimi og spori, fórum út að hjóla og labba með hundana og á milli lágu hundarnir í læknum sökum hita.
Á laugardeginum kepptum við síðan Rallý-hlýðni sem er braut með nokkrum æfingum sem eru gerðar á tíma og sá sem er með stysta tímann og fæstu villurnar vinnur.
Í fyrsta sæti var Skrítni Schaferinn hann Geysir. Í öðru sæti var Kolgrímu Genius Of All TimeHólm - Loki Í þriðja sæti var Ice Tindra Jackson Síðan var keppt í Hlýðni Brons og Hlýðni 1.
Hlýðni Brons : Fyrsta sæti : Kolgrímu Golden Boy Hólm - Harry Annað sæti : Skrítni schaferinn - Geysir. Hlýðni 1: Fyrsta sæti : Vonziu's Asynja - Ynja. Annað sæti : Annar skrítinn schafer - Sandra. Þriðja sæti : Kolgrímu Genius Of All TimeHólm - Loki fjórða sæti : Ice Tindra Aragon Þökkum Propac alveg kærlega fyrir flottu verðlaunin sem þeir styrktu okkur með og þökkum fyrir alveg frábæra samveru á Snæfellsnesinu !
29.06.2015
Sýningarþjálfun hjá SchäferdeildinniSchäferdeildin verður með sýningarþjálfun fyrir tvöföldu útisýningu HRFÍ. Æfingarnar verða haldnar á svæðinu þar sem sýningin verður haldin, á túninu í Víðidalnum. Hægt er að leggja á malar planinu beint á móti dýraspítalanum. Skiptið kostar 500kr sem rennur beint til deildarinnar og eru allir velkomnir. Minnum fólk á að koma með sýningar keðju og taum, kúkapoka og klætt eftir veðri. Æfingarnar verða á miðvikudagskvöldum kl 20 - 1. júlí, 8. júlí, 15. júlí og 22. júlí 14.06.2015
Schäferdeildarganga 14. júní 2015
10.06.2015
Schäferganga 14. júníVið í Schäferdeildinni ætlum að hafa eina af okkar skemmtilegu göngum sunnudaginn 14. júní kl 15.00. Við ætlum að hittast á bílaplaninu hjá Grillhúsinu á Sprengisandi og göngum inní Elliðarárdalinn. Síðan eftir gönguna geta þeir sem vilja tillt sér inná Grillhúsið og fengið sér kaffi saman og spjallað. Allir eru velkomnir með í gönguna.
02.06.2015
Tvöföld sýning HRFÍ 23. - 25. maíHelgina 23.-25. maí var Hundaræktarfélag Íslands með stórglæsilega tvöfalda sýningu. Meistarastigssýning og svo Norðurljósasýning. Sýningarnar voru hver á eftir annari í 2 daga og var Schäferinn á meistarastigssýningu á laugardeginum og svo á Norðurljósasýningunni á sunnudeginum. Í boði var titillinn NLW-15 eða Norðurljósa winner 2015 fyrir þá hunda sem enduðu sem besti rakki og besta tík báða dagana. Var tegundin fjölmenn að vanda og áttum við mikið af fallegum hundum á úrslitum sýningarinnar.
Á meistarastigssýningunni kom það í hlut Harto Stockmari frá Finnlandi að dæma. Byrjaði hann á því að dæma snögghærðu hundana, besti hvolpur tegundar 4-6 mánaða var Gjósku Tófa Tignarlega og annar besti hvolpur tegundar var Gjósku Tindur, Gjósku Tófa Tignarlega gerði sér svo lítið fyrir og endaði sem besti hvolpur dagsins. Í flokki hvolpa 6-9 mánaða var besti hvolpur tegundar Ice Tindra Joy. ISShCh Kolgrímu For Your Eyes Onlyhólm úr meistaraflokki var valinn besti rakki tegundar, þar sem að hann er orðinn meistari þá gekk Íslenska meistarastigið niður til næsta rakka sem var hinn ungi Kolgrímu Implacable. Besta tík tegundar var Kolgrímu Invisible, fékk hún sitt fyrsta meistarastig. Besti hundur tegundar varð svo ISShCh Kolgrímu For Your Eyes Onlyhólm. C.I.B ISCH Easy von Santamar varð besti öldungur tegundar og endaði hún svo sem 2. besti öldungur sýningar. Þá voru það síðhærðu hundarnir sem fylgdu í kjölfarið og valdi Harto besta hvolp tegundar 4-6 mánaða Gjósku Takt Seif, annar besti hvolpur tegundar var Kolgrímu Jolie. Gjósku Taktur Seifur endaði svo sem 4. besti hvolpur dagsins. Bestu hvolpar tegundar í eldri hvolpaflokki voru BOB Ice Tindra Joss og BOS Ice Tindra Jazz. Besti rakki tegundar varð Gjósku Rökkvi-Þór og fékk hann sitt annað meistarastig. Besta tík tegundar var Gjósku Ráðhildur og fékk hún einnig sitt annað meistarastig. Gjósku Rökkvi-Þór endaði svo sem besti hundur tegundar. Seinni daginn á Norðurljósasýningunni voru hundarnir ekki hjá sama dómara. Snögghærðu hundana dæmdi frá Noregi Marit Sunde. Aftur voru það systkinin Gjósku Tófa Tignarlega og Gjósku Tindur sem stóðu uppúr í yngri hvolpaflokki. Gjósku Tófa tignarlega varð aftur besti hvolpur tegundar og endaði svo sem 2. besti hvolpur dagsins í úrslitum. Besti rakki tegundar varð aftur ISShCh Kolgrímu For Your Eyes Onlyhólm og bíður hann því staðfestingar á titlinum NLW-15, óskum við eiganda hans og ræktanda Sirrý Höllu Stefánsdóttur til hamingju. Þar sem að ISShCh Kolgrímu For Your Eyes Onlyhólm kemur úr meistaraflokki rann meistarastigið aftur niður og í þetta skiptið til Kolgrímu Genious of All Timehólm, er þetta hans 2. meistarastig. Besta tík tegundar var Kolgrímu Diva Hólm og fékk hún sitt fyrsta meistarastig. Kolgrímu Diva Hólm gerði sér lítið fyrir og varð besti hundur tegundar. Besti öldungur tegundar var C.I.B ISCH Easy von Santamar. Síðhærðu hundana dæmdi Liliane De Ridder-Onghena frá Belgíu. Besti hvolpur tegundar 4-6 mánaða var Kolgrímu Jolie og endaði hún svo sem 4. besti hvolpur dagsins. Besti rakki tegundar varð Gjósku Rökkvi-Þór, fékk hann sitt 3. meistarastig en þar sem að hann hefur ekki náð tilsettum 2. ára aldri þá hlítur hann ekki meistaranafnbót. En bíður hann staðfestingar á titlinum NLW-15 og óskum við eiganda hans Sóley Isabelle Henen innilega til hamingju. Besta tík tegundar varð sem og fyrri daginn Gjósku Ráðhildur, fékk hún einnig sitt 3. meistarastig en hefur ekki náð 2. ára aldri. Bíður hún einnig staðfestingar á norðurljósa titlinum NLW-15 og óskum við eiganda hennar og ræktanda Örnu Rúnarsdóttur til hamingju. Gjósku Ráðhildur varð besti hundur tegundar. Sýningin var öll hin glæsilegasta og var sýningarsvæðið í reiðhöllinni í Víðidal frábært. Óskum við öllum eigendum innilega til hamingju með hundana sína sem voru bæði til fyrirmyndar fyrir utan og innan hring. Allir verðlaunagripir voru í boði Pro Pac
01.06.2015
Hlýðni I og sporapróf 30. maíÞann 30. maí var haldið Hlýðni I og Spor I próf á Snæfellsnesi í frábærum aðstæðum.
Þrír schäferhundar luku Hlýðni 1 prófinu, einn með fyrstu einkunn og tveir með aðra einkunn og einn lauk Spor I prófi. Hlýðni I Vonziu's Asynja fékk 182 stig af 200 stigum mögulegum og er þetta þriðja skiptið sem þessi unga tík líkur Hlýðni I með yfir 160 stigum og er því komin með OB1 hlýðni titill, sem er stórglæsilegur árangur. Óskum við eigandanum Hildi Pálsdóttir innilega til hamingju með þennan frábæra árangur. Kolgrímu Genius Of All TimeHólm fékk 155 stig. Eigandi Hildur Pálsdóttir. ISTrCh Ice Tindra Aragon fékk 149 stig. Eigandi Kristjana Bergsteinsdóttir. Spor I Kolgrímu Genius Of All TimeHólm lauk einnig Spori I prófi með 75 stigum. Eigandi Hildur Pálsdóttir. Óskum við öllum til hamingju með árangurinn. Dómari Þórhildur Bjartmarz og prófstjóri Brynhildur Bjarnadóttir Ljósmyndir fengnar af www.hundalifspostur.is 24.05.2015
Seinasta hlýðni kvöldiðNúna er hlýðni kvöldunum okkar lokið fyrir sumarið. Við viljum þakka öllum þeim sem eru búnir að vera með okkur í vetur/vor við erum búin að skemmta okkur konunglega og hlökkum til að halda áfram næsta haust.
Við tókum og enduðum þetta með stæl með smá þrautabraut, sem meðal annars innihélt vef, sækja og skila bolta, halda á bolta, fara í gegnum göng, hoppa í gegnum hring og fleira. Að lokum var boðið upp á kaffi og léttar veitingar. Tímataka var fyrir hverja æfingu og röðuðust hundar niður eftir samanlögðum tíma fyrir allar æfingarnar. Hér fyrir neðan má sjá keppendur sem lentu í efstu sætum. Dómari og tímavörður var Kristjana. Í verðlaun voru glæsilegir gjafapokar frá Belcando. 1. sæti: Kátur Skuggi 2. sæti: Loki 3. sæti: Ynja Þökkum síðan Belcando fyrir frábæra vinninga.
21.05.2015
Æfingakvöld í Andvarahöllinni
Schäferdeildin er búin að vera með æfingakvöld alla fimmtudaga síðan í febrúar á þessu ári. Þetta hefur verið mjög skemmtilegt og frábært fólk og líka hundar sem hafa stundað þessi kvöld hjá okkur. Stefnt verður á að byrja aftur í sept með æfingakvöldin.
Næsta fimmtudag 28.maí verður síðasti tíminn og ætlum við að slutta vetrinum með glensi og sprelli. Því verður öllum boðið að koma og vera með þeir sem vilja. Það verður heitt á könnunni. Hér sjáið þið Hildi þjálfa þrjá hunda í einu, sinn hund og 2 lánshunda. Hundarnir heita Ynja, Aragon og Kátur. 18.05.2015
Nýr aðalstyrktaraðili Schäferdeildarinnar
Schäferdeildin kynnir með stolti nýjan aðalstyrktaraðila deildarinnar. Við höfum gert samning við PRO PAC sem mun styrkja okkur með verðlaunagripum í ár. Þetta er mikill stuðningur og erum við afar þakklát fyrir hann. Nánari upplýsingar um PRO PAC fóðrið má finna á vefsíðunni snati.is.
Við þökkum Royal Canin fyrir stuðninginn síðustu ár og munum við að sjálfsögðu halda góðu samstarfi við þau áfram á öðrum sviðum. 11.05.2015
Vinnubúðir á Snæfellsnesi með Þórhildi Bjartmarz í HundalífVið í Schäferdeildinni í samstarfi við Þórhildi Bjartmarz í Hundalífi ætlum að fjölmenna á námskeið þann 25. 26. og 27 júní. Námskeiðið verður haldið á Kleifárvöllum, Eyja- og Miklaholtshreppi, Snæfellsnesi. Æfum hlýðni og hundafimi.
Verð fyrir 1 dag er 7.500 en ef teknir verða 2 eða 3 dagar þá er dagurinn á 6.000 semsagt 18.000 fyrir alla 3 dagana. Við ætlum að gista saman á tjaldsvæðinu við Hótel Eldborg og er nóttin á tjaldsvæðinu 1.000 kr á manninn. Hámarksfjöldi 12 pláss - skráning: [email protected] fyrir 15. júní - skráningargjaldið er 6.000 - bankaupplýsingar verða sendar þegar skráning er móttekin. Áætluð dagskrá: 1. fimmtudagur 11-14 2. fimmtudagur 16-19 3. föstudagur 10-14 4. föstudagur 15-18 5. laugardagur 10-13 6. laugardagur 14-17 æfingapróf hundafimi eða hlýðni. Takmarkaður fjöldi þátttakenda 12 pláss. Nánari upplýsingar gefur Þórhildur s. 892-5757 eða [email protected] - Hildur s.897-3078 eða [email protected]. 06.05.2015
Æfingapróf í Hlýðni brons.Í gær var haldið fyrsta æfingapróf schaferdeilarinnar og voru alls 8 hundar skráðir til leiks af öllum stærðum og gerðum. Við fengum þetta yndislega veður og gekk þetta allt eins og í sögu.
Það voru margir að mæta þarna í fyrsta skiptið í "próf" og stóðu allir sig vel bæði fjórfættir og tvífættir. Fyrstu þrjú sætin : 1. - Vigdís Magnúsdóttir og Kolkós Nökkvi með 166,5 stig 2. - Ingólfur Jón Ágúst Óskarsson og Kátur Skuggi með 159 stig. 3. - Adam og IceTindra Holly með 152 stig Sérstakar þakkir til Þórhildar Bjartmarz prófdómara og Brynhildar Bjarna prófstjóra fyrir að koma og vera með okkur í gær. Þökkum síðan Royal Canin fyrir góðan stuðning og gjafir fyrir fyrstu 3 sætin.
05.05.2015
Æfingapróf í dag 5. maí
Í kvöld verður æfingaprófið í hlýðni brons haldið.
Prófdómari verður Þórhildur Bjartmarz Prófstjóri verður Brynhildur Bjarna. Ritari verður Hildur Pálsdóttir Staðsetning: Á planinu fyrir utan Heimahúsið rétt hjá reiðhöll Gusts (sjá kort neðar). Prófið sjálft byrjar kl 20.00 þannig að það er mæting í seinasta lagi kl 19.40. Allir að mæta með góða skapið og allt lítur út fyrir að við fáum gott veður í prófinu, ef að fólk vill þá er um að gera að mæta með tjald stóla til að geta tillt sér þar sem engin sæti verða á staðnum. Full skráning er í prófið, hlökkum til að sjá alla í kvöld. Æfingapróf Schäferdeildarinnar er í boði:
27.04.2015
Skráning í æfingapróf og æfingakvöld
Búið er að opna fyrir skráningu í æfingapróf Schäferdeildarinnar í hlýðni brons sem haldið verður þriðjudaginn 5. maí kl. 20. Það er hugsað t.d. sem æfing fyrir þá sem eru á leið í próf eða vilja sjá hvernig svona próf ganga fyrir sig. Skráningagjald aðeins 500 kr.
Einnig er skráning opin fyrir hin vinsælu hlýðniæfingakvöld Schäferdeildarinnar. Núna er að byrja fjórði mánuðurinn hjá okkur og hafa viðtökur verið frábærar. Endilega skráið ykkur ef þið viljið hitta aðra hunda og eigendur og æfa saman innandyra. Skráningargjald aðeins 3000 kr. Æfingarnar verða alla fimmtudaga og hefjast í næstu viku, þann 7. maí. Innifalið eru fjögur skipti. Þeir sem hafa áhuga á að vera með í æfingaprófinu eða á æfingakvöldunum geta skráð sig í forminu fyrir neðan (takið fram í hvoru þið viljið vera með) en athugið að greiðsla þarf að fylgja skráningu. Leggja skal inn á reikning Schäferdeildarinnar 586 - 26 - 691010 og kt. 691010-0230. Hér má svo sjá dagskrá vinnuhundadeildar HRFÍ yfir vinnupróf árið 2015. Hvetjum alla til að skoða og kynna sér þá vinnu sem er í boði með hundunum. 26.04.2015
Schäferganga 25. aprílÞökkum fyrir góða göngu í góða veðrinu í gær. 13 flottir hundar mættu í Schäfergönguna ásamt eigendum.
Þökkum Hannesi Ívarssyni fyrir myndirnar. 20.04.2015
Schäferganga um næstu helgi
09.04.2015
Sýningaþjálfun Schäferdeildarinnar
Schäferdeildin verður með sýningaþjálfun í húsnæði Gæludýr.is í Korputorgi og verða eftirfarandi:
Sun. 3. maí kl. 16-17 Sun. 10. maí kl. 16-17 Lau. 16. maí kl. 13:30 - 14:30 Næsta sýning hjá HRFÍ verður hvítasunnuhelgina 23. - 24. maí. Sýningin verður tvöföld, tvær meistarasýningar, og mun því tegundin verða sýnd bæði á laugardegi og sunnudegi líkt og á sumarsýningu HRFÍ síðasta sumar. Ef hundar verða besti rakki eða besta tík báða daga (BOB/BOS) hljóta þeir nafnbótina NLW-15 eða Norðurljósa Winner 2015. Norðurljósasýningin hefst eftir meistarsýninguna báða daga en ekki verður boðið upp á keppni í afkvæma- og ræktunarhópum á Norðurljósasýningunni. Schäferinn verður sýndur á meistarasýningunni á laugardeginum en á Norðurljósasýningunni á sunnudeginum. 31.03.2015
Æfingarpróf í Hlýðni brons 5. maí
Í framhaldi af hlýðni kvöldunum sem Schäferdeildin er búin að standa fyrir þá stefnum við á að halda æfingarpróf í Hlýðni Brons þriðjudaginn 5. maí kl 20:00.
Þetta verður mjög góð æfing fyrir þá sem stefna á að fara í hlýðni próf með hundana sína, bæði fyrir okkur eigendurna til að sjá hvernig prófið gengur fyrir sig og hundana líka. Hámarks fjöldi í prófinu verður 8 hundar þannig að fyrstur kemur fyrstur fær, greiðsla verður að fylgja skráningu til að hún teljist gild. Skráning fer í gegnum schäferdeildina og þarf að greiða inn á reikning deildarinnar. Gjaldið verður 500 kr per hund. Allir velkomnir. Prófdómari verður Þórhildur Bjartmarz Prófstjóri verður Brynhildur Bjarna. Ritari verður Hildur Pálsdóttir. Staðsetning verður auglýst síðar. Hér má lesa reglur og fleira varðandi æfingarnar. 29.03.2015
Schäferdeildarganga 29. mars 2015
Þökkum fyrir gönguna í dag , 8 flottir schäferhundar mættu með eigendum sínum.
Fengum frábært veður. Hér er ein hópmynd og fleiri myndir í myndaalbúmi. 28.03.2015
Hlýðniæfingar SchäferdeildarinnarHlýðniæfingakvöld Schäferdeildarinnar halda áfram í næsta mánuði. Það verður sama fyrirkomulag og áður. Það þarf að skrá sig og greiða fyrirfram fyrir allan mánuðinn og senda kvittun úr heimabanka til deildarinnar.
Leggja skal inn á reikning Schäferdeildarinnar 586 - 26 - 691010 og kt. 691010-0230 Skráningagjald er 3.500 kr, innifalið eru 5 æfingakvöld í apríl. Kostnaðurinn er einungis vegna leigu á reiðhöllinni. Æfingarnar verða áfram á fimmtudögum kl. 20 í reiðhöll Spretts í Garðabæ (gamla Andvarahöllin). Vinsamlega skráið ykkur hér eða sendið email á deildina. Skráningafrestur er til 2. apríl. Allar tegundir eru velkomnar. 18.03.2015
Schäferganga sunnudaginn 29. marsSchäferdeildin ætlar að vera með göngu sunnudaginn 29. mars. Ætlum að hittast kl. 13.00 við Digraneskirkju í Kópavoginum og göngum hring niður við lækinn. Það eru allir velkomnir með og þetta er góð umhverfisþjálfun fyrir alla hunda. Hlökkum til að sjá sem flesta.
12.03.2015
Alþjóðleg sýning HRFÍ
Fyrsta hundasýning ársins fór fram dagana 28. febrúar - 1. mars síðastliðinn. Fjöldi hunda var skráður til leiks eins og vanalega og góður andi var í fólki. Sýningin var að þessu sinni haldin á nýjum stað í verslunarmiðstöðinni á Smáratorgi og fór hún vel fram þrátt fyrir þrengra svæði en við eigum að venjast. Skráðir voru 44 snöggir hundar og 13 síðhærðir og dómari var hinn danski Tomas Rohlin.
Í snögghærðu hundunum varð besti hundur tegundar ISShCh Kolgrímu For Your Eyes OnlyHólm og endaði hann svo í öðru sæti í tegundarhópi 1. Hann fékk alþjóðlegt meistarastig en íslenska meistarastigið rann niður til Kolgrímu Genius Of All TimeHólm og var það hans fyrsta stig og einnig vara alþjóðlegt meistarstig . Besti hundur af gagnstæðu kyni var ISShCh Gunnarsholts Whoopy, hún fékk einnig alþjóðlegt meistarastig en íslenska stigið rann niður til Ice Tindra Gordjoss sem einnig fékk sitt fyrsta íslenska meistarastig og vara alþjóðlegt meistarstig. Besti hvolpur tegundar í flokki 4-6 mánaða varð Ice Tindra Jessy, endaði hann svo sem 4. besti hvolpur dagsins. Í flokki 6-9 mánaða var Svarthamars Högna hlutskörpust og varð hún svo 3. besti hvolpur dagsins. Besti öldungur tegundar var C.I.B ISCH Easy von Santamar. Besta ræktunarhóp tegundar átti Ice Tindra ræktun og enduðu þau svo sem 2. besti ræktunarhópur dagsins. Í síðhærðu hundunum var það ISShCh RW-13 Gjósku Osiris sem var besti hundur tegundar og fékk hann alþjóðlegt meistarastig. Besti hvolpur tegundar 4-6 mánaða var Ice Tindra Jewel en annar besti hvolpur var gotbróðir hennar Ice Tindra Jazz. Besta ræktunarhóp tegundar átti Gjósku ræktun. Viljum við óska öllum ræktendum og eigendum innilega til hamingju með vel heppnaða sýningu. Allir verðlaunagripir voru í boði Royal Canin og þökkum við þeim kærlega fyrir stuðninginn. Umsagnir allra hunda verða einnig birtar á vefnum fljótlega. Búið er að skrá öll stig í stigakeppni deildarinnar en hana má finna undir hnappnum Sýningar - Stigakeppni deildarinnar. 06.03.2015
Stórhundadagar í Garðheimum
Helgina 14. - 15. mars verða stórhundadagar í Garðheimum. Schäferdeildin verður með bás að venju og vantar okkur eigendur og hunda sem eru til í að sitja í ca klst. Þetta er frábært tækifæri til þess að kynna tegundina okkar en fólk getur gengið á milli bása, spjallað við eigendur og fengið að klappa hundunum. Þeir sem hafa áhuga á að vera með geta skráð sig hér fyrir neðan. Vinsamlega takið fram hvaða tímasetning hentar ykkur. Kynningin fer fram milli kl. 13-17 báða daga. Hundar sem taka þátt skulu vera fullbólusettir og ormahreinsaðir og ekki er æskilegt að taka með lóðatíkur.
Aðrir viðburðir sem verða í boði á Stórhundadögum í Garðheimum:
Dýralæknir til skrafs og ráða. Ýmis hundafóður með kynningu og tilboðsverð:
Hundavinir Rauða Krossins kynnir starfssemi sína. Pet Head Hundasjampó með kynningu og tilboðsverð Heiðrún hundaþjálfari verður með ráðgjöf. Eldur ís sleðahundar munu skemmta krökkunum með sleðaferðum. Lukkupottur þar sem hundaeigendur geta fyllt út miða með nafni og símanúmeri. Dregið verður úr pottinum í vikunni á eftir og veglegir hundafóðurspakkar í verðlaun ásamt hundaleikföngum. 05.03.2015
Nýja stjórn SchäferdeildarinnarAðalfundur Schäferdeildarinnar fór fram miðvikudagskvöldið 4. mars. Fjögur sæti voru laus og buðu fjórir aðilar sig fram. Rúna Helgadóttir og Kristjana Guðrún voru kosnar inn til 2 ára, Hildur Pálsdóttir og Steinunn Lilja Gísladóttir voru kjörnar til eins árs. Verkaskipting stjórnar er eftirfarandi:
Íris Hlín Bjarnadóttir formaður Rúna Helgadóttir Borgfjörð varaformaður Kristjana Guðrún gjaldkeri Hildur Pálsdóttir ritari Steinunn Lilja Gísladóttir meðstjórnandi Við bjóðum nýja stjórnarmeðlimi velkomna og hlökkum til samstarfsins. 02.03.2015
Ýmsar tilkynningarAlþjóðleg sýning HRFÍ fór fram um helgina. Helstu úrslit eru komin inn á heimasíðuna og má finna þau undir hnappnum Sýningar - Úrslit sýninga. Frekari úrslit og umsagnir allra hundar verða birt þegar gögn hafa borist frá félaginu.
Aðalfundur Schäferdeildarinnar verður haldinn á miðvikudagskvöldið næsta kl. 20 á skrifstofu HRFÍ. Hlýðniæfingakvöld Schäferdeildarinnar hefjast á fimmtudaginn. Við minnum fólk á að greiðsla þarf að fylgja skráningu til þess að hún sé gild og þarf að senda greiðslukvittun til deildarinnar. 24.02.2015
Hlýðniæfingakvöld í marsHlýðniæfingakvöld Schäferdeildarinnar halda áfram í næsta mánuði. Það verður sama fyrirkomulag og áður. Það þarf að skrá sig og greiða fyrirfram fyrir allan mánuðinn og senda kvittun úr heimabanka til deildarinnar. Leggja skal inn á reikning Schäferdeildarinnar 586 - 26 - 691010 og kt. 691010-0230 Skráningagjald er 3000 kr, innifalið eru 4 æfingakvöld í mars. Kostnaðurinn er einungis vegna leigu á reiðhöllinni. Æfingarnar verða áfram á fimmtudögum kl. 20 í reiðhöll Spretts í Garðabæ (gamla Andvarahöllin). Vinsamlega skráið ykkur hér eða sendið email á deildina. Skráningafrestur er til 2. mars. Allar tegundir eru velkomnar.
23.02.2015
Aðalfundur Schäferdeildarinnar
Aðalfundur Schäferdeildarinnar verður haldinn miðvikudaginn 4. mars kl. 20 á skrifstofu HRFÍ að Síðumúla 15. Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf. Farið verður yfir ársskýrslu og ársreikning deildarinnar auk þess sem kosið verður til stjórnar Schäferdeildarinnar. Fjögur sæti eru laus, tvö til eins árs og tvö til tveggja ára.
Kosningarétt og kjörgengi á ársfundum deilda hafa þeir, sem eru skráðir eigendur hunda í viðkomandi deild, eru skráðir í deildina og skuldlausir við félagið það ár sem ársfundur er haldinn. Hjón hafa kosningarétt og kjörgengi hvort heldur þau greiða félagsgjald sem hjón eða í sitthvoru lagi sé annað þeirra skráð fyrir hundi í deildinni.
03.02.2015
Sýningarþjálfun fyrir febrúarsýningu HRFÍSchäferdeildin verður með sýningarþjálfun fyrir næstu sýningu HRFÍ dagana 8. 15. og 22. febrúar í verslun Gæludýr.is Korputorgi klukkan 13:00-14:00 og kostar skiptið 500kr.
Sýningarþjálfun deildarinnar hentar bæði byrjendum sem og lengra komnum og er frábær leið til þess að auka kunnáttu sína sem sýnandi, ásamt því að vera góð umhverfisþjálfun. Viljum við minna fólk á að koma með sýningartaum og keðju, kúkapoka, nammi og góða skapið! Allir velkomnir, við hlökkum til að sjá ykkur. 21.01.2015
Hlýðniæfingar SchäferdeildarinnarGöngunni á morgun, sunnudag, er frestað vegna veðurs. Stefnum á fimmtudagskvöldið kl. 19:30. *(breytt lau.24.01)*
Schäferdeildin verður með vinnuæfingakvöld í febrúar. Við höfum fengið reiðhöll Spretts í Garðabæ á leigu (gamla Andvarahöllin) og ætlum að bjóða upp á æfingakvöld einu sinni í viku á fimmtudögum kl. 20. Ef þetta fyrirkomulag leggst vel í fólk þá munum við halda þessu áfram í vor. Hver og einn æfir sinn hund auk þess sem þetta er gott tækifæri til umhverfisþjálfunar. Þeir sem hafa áhuga á að ljúka hlýðniprófi í vor geta nýtt þetta góða tækifæri til þess að æfa með öðrum schäferhundum og schäfereigendum. Það verða reyndari aðilar með í hópnum sem munu geta aðstoðað við æfingarnar ef einhverjir óska þess. Mánaðargjaldið er 3000 kr. á mann (innifalið eru 4 æfingakvöld) og er það vegna leigu á húsnæðinu. Mánaðargjaldið er einnig staðfestingargjald. Það þarf að greiða fyrirfram og skal leggja inn á reikning Schäferdeildarinnar 586 - 26 - 691010 og kt. 691010-0230 fyrir 1. feb. Vinsamlega sendið kvittun á deildina þegar millifært er á [email protected]. Æfingarnar verða alla fimmtudaga í febrúar: 5. / 12. / 19. og 26. febrúar kl. 20. Við munum bjóða upp á kaffi á meðan æfingum stendur. 18.01.2015
Viðburðir í janúar og febrúar
Gleðilegt nýtt ár kæru félagsmenn og takk fyrir samveruna og samstarfið á liðnu ári. Starfið hjá okkur byrjar af krafti á nýja árinu og ætlum við að bjóða ykkur velkomin í schäfergöngu um næstu helgi. Sunnudaginn 25. janúar ætlum við að hittast við félagsheimili Fáks í Víðidal og ganga góðan hring í þessu fallega umhverfi. Sjáumst hress kl. 13:30.
Sýningaþjálfun fyrir febrúarsýninguna verður á sínum stað og ætlum við að halda okkur innandyra eins og síðast. Við fengum aftur tíma hjá Gæludýr.is í Korputorgi en fyrir innan verslunina er góður salur sem við fáum til afnota. Sýningarþjálfunin verður haldin nokkra sunnudaga fram að sýningu, nánar tiltekið sunnudagana 8. 15. og 22. febrúar kl. 13 og kostar skiptið 500 kr. Sýningin sjálf verður helgina 28. feb - 1. mars en síðasti skráningardagur er föstudaginn 30. janúar. Við minnum ykkur á hvolpasýningu HRFÍ sem haldin verður laugardaginn 24. janúar í Gæludýr.is í Korputorgi. Sýndir verða hvolpar af ýmsum tegundum á aldrinum 3-9 mánaða og þar á meðal 11 schäferhvolpar. Sjá nánari upplýsingar hér. |
Nýlega uppfært:
Vinnuprófafréttir 15.12.15 Stigakeppni 19.11.15 Umsagnir 19.11.15 Sýningarúrslit 19.11.15 Viðburðardagatal27.-28. feb. Alþjóðleg sýning HRFÍ
Sýningin fer fram í reiðhöllinni í Víðidal Rvk. Síðasti skráningardagur á G1 er 14. jan. Síðasti skráningardagur á G2 er 28. jan. Láttu í þér heyra
Allar almennar fyrirspurnir er varða málefni deildarinnar skulu sendast á beint á ræktunarstjórn deildarinnar. Fyrirspurnum er svarað strax eða eftir næsta stjórnarfund, allt eftir eðli málsins.
Ef þú ert með ábendingu er varða rangar upplýsingar á vefsíðunni okkar getur þú sent stjórn deildarinnar vefpóst með beiðni um leiðréttingu eða fyllt út í formið hér að ofan. Við viljum heyra hvað þú hefur að segja um starfsemi deildarinnar. Láttu okkur vita hvað þú ert ánægð/ur með og komdu með ábendingu um það sem betur má fara. Allar athugasemdir og hugmyndir eru vel þegnar. Netfang stjórnar Schäferdeildarinnar er [email protected] Stjórn Schäferdeildarinnar
Íris Hlín Bjarnadóttir formaður
Rúna Helgadóttir Borgfjörð varaformaður Kristjana Guðrún gjaldkeri Hildur Pálsdóttir ritari Steinunn Lilja Gísladóttir meðstjórnandi |