Undir fjögur augu
-rætt við norska dómarann Karl Otto Ojala, sem telur að sitthvað megi bæta
Hæpin veðurspá, dumbungur og gegnvot grund eftir langvarandi rigningar urðu til þess að 25 ára afmælissýning deildarinnar var færð úr Guðmundarlundi inn í reiðhöll Fáks í Víðidalnum. Telja má fullvíst að sýnendur, starfsmenn og áhorfendur hafi allir verið ánægðir með þá ákvörðun, enda hitastigið 8 gráður og heilmikil slysahætta á rennvotu grasinu utan dyra. Til leiks var skráður 61 hundur og er einkar ánægjulegt að skráningarmet hafi verið slegið á þessari afmælissýningu, sem er þriðja sérsýning deildarinnar á 25 árum.
Norski dómarinn Karl Otto Ojala hefur átt og ræktað Schäfer í 26 ár undir ræktunarnafninu Komsa og hefur haft réttindi til að dæma tegundina síðan 1999. Hann hefur jafnframt réttindi til að dæma vinnupróf og dæmdi einmitt sporapróf fyrir deildina sunnudaginn 7. júlí.
Stuttur upphandleggur og stórir hundar
„Almennt voru hundarnir á sýningunni miðlungs góðir og innan um voru hundar í háum gæðaflokki,“ sagði Karl Otto að lokinni sýningunni. Hann kvaðst einkum hafa orðið fyrir vonbrigðum með framhlutann og mjög margir hundanna hefðu of stuttan upphandlegg (upper arm). Þess ber að geta að markmiðið er að herðablað og upphandleggur séu jafn löng og myndi 90° horn. Annars fer orka hundsins og tími til spillis þegar hann hleypur.
Ennfremur sá Karl Otto ástæðu til að vara ræktendur við því að para tvo stóra hunda, margir hundanna á sýningunni hefðu verið á mörkum þess að vera of hávaxnir og nauðsynlegt væri að halda hæðinni í skefjum. Hæðamörk samkvæmt markmiði tegundarinnar eru 55-60 cm fyrir tíkur og 60-65 cm fyrir rakka. Þá er miðað við að þeir séu mældir frá gólfi að herðakambi, efsta punkti herðablaðsins.
„Svo mættu eigendur gjarnan þjálfa hundana sína betur fyrir sýningar. Schäfer ætti að hlaupa fyrir framan sýnandann, ekki við hlið hans eins og sumir gerðu. Einnig eiga þeir að geta sýnt eðlilegar hreyfingar á göngu og þess vegna bað ég sýnendur að ganga og hlaupa til skiptis.“ Aðspurður sagðist hann ekki hafa lent í vandræðum með að skoða hundana þótt þeir virtust ekki mikið sýningaþjálfaðir og einnig sagði hann að lundernið virtist prýðisgott.
Stutt spjaldbein
Spjaldbein (croup) margra hundanna er að mati Karls Ottos of stutt. Ræktunarmarkmið er að spjaldbeinið sé langt vegna þess að stutt spjaldbein bitnar á skreflengd hundsins og æskilegt er að Schäfer komist sem lengsta vegalengd í sem fæstum skrefum.
Höfuð hundanna voru almennt góð, sagði Karl Otto og feldgerðin sömuleiðis, þótt sumir hundanna væru feldlitlir á þessum árstíma. Hann kvaðst ánægður með að hafa fengið boð um að dæma á afmælissýningu deildarinnar, vel hefði verið tekið á móti sér og það fólk sem hann hefði hitt væri afar viðkunnanlegt.
Sjálf er ég mikill aðdáandi deildarsýninga og finnst þær frábær vettvangur til að fá sérfróða dómara og áhugamenn um viðkomandi tegundir til að dæma hundana. Í reiðhöllinni í Víðidal var að mínu mati haldið uppá afmæli deildarinnar með skemmtilegum hætti. Þarna voru borð og stólar í kringum veitingasöluna, svo hálfgerð veitingahúsastemmning myndaðist og einnig var sérstaklega gaman að dómarinn skyldi greina upphátt frá áliti sínu á þeim hundum sem sigruðu í hverjum flokki.
Ákaflega vegleg sýningaskrá sem afhent var í plastmöppu var deildinni til mikils sóma og sömuleiðis öll þau ósköp af verðlaunum og viðurkenningum sem velunnarar deildarinnar gáfu. Til hamingju með afmælið, schäferfólk!
Brynja Tomer
Hæpin veðurspá, dumbungur og gegnvot grund eftir langvarandi rigningar urðu til þess að 25 ára afmælissýning deildarinnar var færð úr Guðmundarlundi inn í reiðhöll Fáks í Víðidalnum. Telja má fullvíst að sýnendur, starfsmenn og áhorfendur hafi allir verið ánægðir með þá ákvörðun, enda hitastigið 8 gráður og heilmikil slysahætta á rennvotu grasinu utan dyra. Til leiks var skráður 61 hundur og er einkar ánægjulegt að skráningarmet hafi verið slegið á þessari afmælissýningu, sem er þriðja sérsýning deildarinnar á 25 árum.
Norski dómarinn Karl Otto Ojala hefur átt og ræktað Schäfer í 26 ár undir ræktunarnafninu Komsa og hefur haft réttindi til að dæma tegundina síðan 1999. Hann hefur jafnframt réttindi til að dæma vinnupróf og dæmdi einmitt sporapróf fyrir deildina sunnudaginn 7. júlí.
Stuttur upphandleggur og stórir hundar
„Almennt voru hundarnir á sýningunni miðlungs góðir og innan um voru hundar í háum gæðaflokki,“ sagði Karl Otto að lokinni sýningunni. Hann kvaðst einkum hafa orðið fyrir vonbrigðum með framhlutann og mjög margir hundanna hefðu of stuttan upphandlegg (upper arm). Þess ber að geta að markmiðið er að herðablað og upphandleggur séu jafn löng og myndi 90° horn. Annars fer orka hundsins og tími til spillis þegar hann hleypur.
Ennfremur sá Karl Otto ástæðu til að vara ræktendur við því að para tvo stóra hunda, margir hundanna á sýningunni hefðu verið á mörkum þess að vera of hávaxnir og nauðsynlegt væri að halda hæðinni í skefjum. Hæðamörk samkvæmt markmiði tegundarinnar eru 55-60 cm fyrir tíkur og 60-65 cm fyrir rakka. Þá er miðað við að þeir séu mældir frá gólfi að herðakambi, efsta punkti herðablaðsins.
„Svo mættu eigendur gjarnan þjálfa hundana sína betur fyrir sýningar. Schäfer ætti að hlaupa fyrir framan sýnandann, ekki við hlið hans eins og sumir gerðu. Einnig eiga þeir að geta sýnt eðlilegar hreyfingar á göngu og þess vegna bað ég sýnendur að ganga og hlaupa til skiptis.“ Aðspurður sagðist hann ekki hafa lent í vandræðum með að skoða hundana þótt þeir virtust ekki mikið sýningaþjálfaðir og einnig sagði hann að lundernið virtist prýðisgott.
Stutt spjaldbein
Spjaldbein (croup) margra hundanna er að mati Karls Ottos of stutt. Ræktunarmarkmið er að spjaldbeinið sé langt vegna þess að stutt spjaldbein bitnar á skreflengd hundsins og æskilegt er að Schäfer komist sem lengsta vegalengd í sem fæstum skrefum.
Höfuð hundanna voru almennt góð, sagði Karl Otto og feldgerðin sömuleiðis, þótt sumir hundanna væru feldlitlir á þessum árstíma. Hann kvaðst ánægður með að hafa fengið boð um að dæma á afmælissýningu deildarinnar, vel hefði verið tekið á móti sér og það fólk sem hann hefði hitt væri afar viðkunnanlegt.
Sjálf er ég mikill aðdáandi deildarsýninga og finnst þær frábær vettvangur til að fá sérfróða dómara og áhugamenn um viðkomandi tegundir til að dæma hundana. Í reiðhöllinni í Víðidal var að mínu mati haldið uppá afmæli deildarinnar með skemmtilegum hætti. Þarna voru borð og stólar í kringum veitingasöluna, svo hálfgerð veitingahúsastemmning myndaðist og einnig var sérstaklega gaman að dómarinn skyldi greina upphátt frá áliti sínu á þeim hundum sem sigruðu í hverjum flokki.
Ákaflega vegleg sýningaskrá sem afhent var í plastmöppu var deildinni til mikils sóma og sömuleiðis öll þau ósköp af verðlaunum og viðurkenningum sem velunnarar deildarinnar gáfu. Til hamingju með afmælið, schäferfólk!
Brynja Tomer